Erum flutt!!

Ég er hér enn, bara ekki mjög iðin við að blogga!

Það er búið að ganga á ýmsu hjá okkur síðan ég bloggaði síðast. Ég er alltaf í praktíkinni í Nyborg, Helgi í skólanum og Hafdís í leikskólanum. Það er þó að síga á seinni hlutann í fyrri hlutanum í praktíkinni. Það eru 3 vikur eftir í Nyborg svo skóli í 2 vikur og svo frí í eina þar til ég fer aftur. Þessum módul (helmingur annar) líkur með ritgerð sem við verðum að vinna í skólanum í 2 vikur. Ég hlakka til að fá viku frí Grin

Helsta er þó að frétta af okkur er að við erum flutt af Demantsvej 20 í litla kollegie íbúð! Fluttum á fimmtudaginn síðasta og erum að koma okkur fyrir. Þetta verður bara huggulegt hjá okkur hér í 53 fm. en þó smá erfitt að koma dótinu, sem við vorum með í 100 fm., fyrir í þessu plássi en þetta er allt að hafast. Hér ætlar okkur að líða vel, höfum fullt af góðum nágrönnum og fyrst og fremst er Hrafnhildur hér í næsta húsi sem er bara frábært. Það er líka fullt af krökkum hér á aldur við Hafdísi svo henni á ekki eftir að mislíka við nýja staðinn. Mest finnst mér leiðinlegt að hún þarf að skipta um leikskóla, hún á svo góða vini á hinum, en það er ekki hægt að fá alltFrown Erum þó farin að undirbúa hana undir það og hún er aðeins spennt yfir þessu öllu saman en vill þó bara fá vini sína og leikskólakennara með sér á nýja leikskólann... er að vonast til að geta sett hana í aðlögun í vikufríinu mínu.

Annars er þessi önn bara búin að vera frekar strembin, vakna snemma til að vera mætt snemma en það er bara eitthvað svo erfitt að koma sér í rúmið snemmaUndecided Það gengur bara fínt hjá mér í praktíkinni og eftir að ég byrjaði þar hefur danskan verið að koma miklu hraðar, skil meir og meir með hverjum deginum en á þó smá erfitt með að koma hlutunum frá sér. Þarf að minna mig á það á hverjum degi og oft á dag að Róm var ekki byggð á einum degi.

Þar til næst...


Komin að heiman og heim!!

Langt síðan síðast... Sumarið búið og við komin aftur til Danmerkur! Eins og ég kveið fyrir að pakka áður en við lögðum af stað var ég eitthvað aflappaðari heima hjá mömmu og hún þarf að senda mér helminginn af dótinu mínu... sem ég gleymdi!! Hahaha!! Íslandsdvölin var fljót að líða, allt of fljót. Náði þó að kíkja á fiskidaginn mikla og fara í útilegu á Akureyri. Annars gerðum við lítið annað en að vinna og sofa, hitta góða vini og sofa og borða góðan mat og létum stjana við okkur hjá mömmu og pabba. Hafdís var í góðu yfirlæti hjá ömmu sinni og afa og náði að stjórna þeim alveg eins og hún vildi hafa þau, á meðan við unnum :) Ég á sjúkrahúsinu og Helgi í álverinu. Hrafnhildur og Viktor fluttu svo með okkur út, það verður gott að hafa þau hér í vetur. Öryggisnetið okkar alltaf að stækka :)  

Skólinn er byrjaður á nýjan leik og við svona að reyna að koma okkur aftur í rútínu. Ég byrjaði í praktík í morgun og verð á röntgendeildinni í Nyborg næstu 10 vikurnar. Á að vera mætt þar 7.30 á morgnana til kl. 15, þannig að það verður farið snemma í háttin til að vakna snemma. Hlakka til að sjá hvernig það gengur með Hafdísi að fara svona snemma á fætur, nógu erfitt að fá hana fram úr klukkan hálfátta hvað þá sex!!! En það hlýtur að komast í rútínu eins og hvað annað.

Hafdís var ekkert á því að fara aftur í leikskólann og mér leið alveg eins og þegar ég skildi hana eftir fyrsta daginn, hún grét og grét á eftir mér og sagðist ekki skilja neitt!! Þegar ég náði svo í hana var hún bara söm við sig, bara gaman á leikskólanum og vildi bara ekkert koma heim. Hún var bara fegin að hitta vini sína og að fá að leika sér allan daginn.

Þar til næst...


Á leiðinni að heiman og heim!

Að heiman er gott en heima er best, heyrði ég fleygt um daginn. Ég er svo sammála þessu, nú þegar ég er á "heim"-leið en á sama tíma að fara að heiman. Heima er þar sem dótið mitt er en Neskaupstaður er alltaf heima í mínum huga, á ég þá ekki tvö heimili?!

En nú er allur spenningur á enda og strenningurinn (stress/spenna) tekin við... hvað á ég að taka með, þessu má ekki gleyma, þetta verður eftir, nota þetta aldrei, er ég ekki komin með of mikið, nei ég má ekki vera án þessa og þessa og þessa... nei, jú ég á eftir að nota alla þessa skó! Já, þetta er búið að vera frekar erfið pökkun, ég hef aldrei farið að heiman áður í 6 vikur með famelí með! Og ég get ekki ákveðið í hverju ég ætla að vera um verslunarmannahelgina... svo það er bara best að taka þetta allt.

Hafdís Huld ætlaði aldrei að sofna í kvöld, svo spennt fyrir ferðalaginu. Segist vera fullorðin og ráði sér alveg sjálf, hún þurfi bara ekkert að sofa... hahaha...

Anna Margrét er búin að vera hjá okkur undanfarna 10 daga, bara búið að vera gott og notalegt að hafa hana. Hafdís var reyndar svo svo svo lasin hérna fyrstu 5 dagana að það var ekkert hægt að gera skemmtilegt með Önnu en hún er sátt með ferðina. Fór í keilu, í búðir, bíó, friluftsbaðið, í búðir marga rúnta um Óðinsvé, og í búðir. Hún er sko fötuð upp fyrir sumarið gellan Smile En allir góðir tímar taka enda. Nú kemur hún með okkur heim í ferjunni. Ég er samt strax farin að hlakka til að fá hana aftur í heimsókn.

Nú bíðum við Helgi eftir að leggja af stað til Hanstholm, einn og hálfur tími í að ferðalagið hefjist. Þ.e. að við leggjum af stað, Norræna fer svo frá DK kl. 11 að staðartíma... og 2 sólarhringum seinna keyrum við upp Fjarðarheiðina, Fagradalinn, Oddskarðið og niður í fjörðinn fagra... "Heim"

Þar til næst...


2 vikur í heimferð!!

Það er ekki mikið að frétta af okkur á Demantsveginum. Helgi nýtur þess bara í botn að vera búin og ég stressast meir og meir með hverjum degi sem líður að prófi!!

Helgin var róleg hjá okkur, tókum rúnt á laugardeginum um Óðinsvé og nágrenni, og Helgi fór svo út með Hafdísi á sunnudeginum svo ég gæti lært eitthvað... Svo eru Hilmir og Svava búin að vera hjá okkur, en þau fara í ferjuna á morgun. Held nú bara að við eigum eftir að sakna þeirra.

Anna Margrét kemur svo á föstudaginn. Helgi ætlar að sækja hana á flugvöllinn og eyða helginni á Sjálandi og ég ætla að vera heima að læra. Þau ætla að gista hjá Hjalla hennar Siggu og fara á 17. júní fest í Køben á laugardeginum og eitthvað meira skemmtilegt. Á meðan ég verð heima með dregið fyrir glugga svo sólin skíni ekki á mig og les, það er allavega planið. Gott að hafa planWink Svo er að koma Sirkus um helgina sem Helgi ætlar að fara með stelpurnar í. Þau eiga eftir að skemmta sér vel og svo ennþá betur á fimmtudaginn næsta þegar ég er búinGrin

Svo eru bara 2 vikur í heimferð... Ég hlakka orðið svo til að hitta alla, fara í fjallaferðir og njóta mín. Vera á Hótel m&p sem er best í heimi. Hafdís ætlar sko alltaf að vera að fara í sund og alltaf að vera úti að leika sér, ekki það að hún er mjög dugleg að vera úti en hlakkar samt til að vera úti heima hjá ömmu og afa.

Þar til næst...


Það styttist...

... og styttist!!! Próf eftir 2 vikur og mér finnst ég vita minna núna en þegar ég byrjaði! Er nærri búin með eðlisfræðiverkefnið en það vantar enn inn í það. Ætla að freista þess að byðja um frest fram yfir helgi og reyna að laga og bæta, nú ef ég fæ það ekki fer það eins og það er núna og ekkert hægt að gera í því.

Helgi er búin með sín próf, efnafræði og ensku. Hann veit ekki alveg hvernig efnafræðin gekk, ekkert alltof bjartsýnn á það, en fékk 10 í ensku. Snillingurinn litliSmile Skólinn hjá honum er samt ekki búinn, en það er ekki mikil mæting í hann þessa dagana. Bara gott að fá svona smá frí þegar búið er að læra og læra... Hann hefur líka verið að hjálpa Hilmi og Svövu, vinafólki okkar, sem eru að flytja aftur til Íslands í næstu viku. Þau fara með norrænu á þriðjudaginn næsta.

Anna Margrét ætlar svo að koma til okkar í næstu viku. Hún verður samferða Huldu, mömmu hennar Möggu vinkonu, til að vera viðstödd útskrift hjá Möggu og Atla. Magga er að útskrifast sem geislafræðingur og Atli sem kírópraktor. Hörku dugleg systkin þar á ferð. En það verður gaman að fá Önnu, ég get þó ekkert hitt hana að ráði fyrr en 25. júní, en þá er prófið búið. Hún ætlar svo að koma með okkur til baka í Norrænu. Helgi verður bara hennar leikfélagi þangað til, getur sýnt henni sebrahestinn í dýragarðinum og svonaWink

Annars er lífið hjá okkur bara á bið þessa dagana, ekkert mikið að gerast hjá okkur. Einhvernveginn eru allir að halda niðri í sér andanum og ætla að sleppa þegar prófin eru búin. Pia, eina vinkona mín í skólanum, sagði mér í gær að hún ætlar að hætta. Hún ætlar ekki að taka prófið, bara að fara að vinna aftur og sinna börnum og heimili. Hún er sjúkraliði og ætlar bara að halda áfram að vinna á því sviði. Það verður erfitt að hafa hana ekki, en ég get þó alltaf hringt í hana.

En 3 vikur í ísland... ekki langur tími það!! Gerið kokteilhristarana klára.... hehe

Þar til næst...


Próf-smóf

Vikurnar fljúga áfram hér í Óðinsvé, áður en við vitum af verðum við farin að plana jól!!! En það er komin frekar mikill spenningur í okkur að fara heim, enda ekki mánuður í heimferðina. Og svo er það tilhlökkunin að Hrafnhildur og Viktor ætla með okkur til baka og búa með okkur í Odense næsta veturGrin Ég hafði aldrei áhyggjur af því að fyrir utan mömmu og pabba yrði Hrafnhildur fyrst til að heimsækja okkur, en flokkast það sem heimsókn að hún flytji?!?!

Helgi er lokaður inni í skólanum sínum í dag og ætlar að vera það alla helgina, hann fer í próf á mánudag og þriðjudag (efnafræði á mánudag og ensku á þriðjudag). Hann situr þar með bekkjarbræðrum sínum og þeir lesa og lesa. Get ekki annað sagt en að það sé smá öfund frá mér að hann verði búin svona langt á undan mér.

Begga frænka kom til mín í dag og gaf mér Emami kjólinn í afmælisgjöf, þannig að nú er ég súperglaður emamikjólaeigandi sem veit ekkert hvernig þessi dula virkar... verð að leggjast fyrir framan kennslumyndböndin á netinu, hahaha!!

Þar til næst...


Nokkrar línur af Demantsveginum

Jæja, það er nú frekar langt síðan ég bloggaði og kominn tími á nokkrar línur!

Það er nú ekki margt að gerast hjá okkur þessa dagana. Sumarið er komið með sól og hita, við erum meira að segja mjög dugleg að hanga bara inni því þar er betra en úti :) Skólinn gengur sinn vanagang hjá okkur Helga, við mætum allavega á hverjum degi og svo er bara spurning hvað af námsefninu síast inn. Búið að vera frekar strembið undanfarnar vikur. Kvíði fyrir prófunum er farinn að segja svolítið til sín en það er nú ekki langt í að þessi önn sé á enda, ég fer í próf 25. júní og Helgi eitthvað fyrr.

En annars erum við búin að panta okkur far með Norrænu til Íslands og er áætlaður komutími á Seyðisfjörð 2. júlí. Ég byrja strax að vinna á sjúkrahúsinu og Helgi fer í álverið, svo verður það bara vinna-vinna-vinna allt sumarið og förum til baka 13. ágúst. Svo það verður ekki mikið sumarfrí hjá okkur, gæti þó verið að maður skelli sér í eina útilegu eða svo...

Hafdís skutla hlakkar svo til að fara heim í sumar, segist ætla að fara alltaf í sund með afa sínum og ömmu því þau fari alltaf með henni í sund... Það verður gott fyrir hana að fá smá frí frá okkur og vera með einhverjum öðrum. Annars fórum við með snuddurnar hennar á snuddutréið um daginn. Hún var þó búin að vera hætt með þær í þónokkurn tíma þegar ferðin á snuddutréið var farin, en hún er bara frekar sátt við að þær séu farnar og mælir tennurnar á hverjum degi til að sjá hvort snuddutennurnar séu nú ekki að fara.

Þar til næst...


Mamma

Í dag á mikilvægasta kona í lífi mínu afmæli, það er hún mamma. Og til að að toppa 50 ára afmælisdaginn hjá þessari frábæru konu, sem er mér svo kær, hendir hann á mæðradaginn þetta árið. Mér finnst hún vera besta mamman í heiminum.

Mamma er konan sem er alltaf til staðar, konan sem hefur kennt mér svo margt. Hún kenndi mér að tala sem barn, kenndi mér svo að þegja sem aðeins eldra barn, kenndi mér hvað á að segja og hvenær á að þegja, þegar ég þroskaðist aðeins meira. Hún hefur reynt að eftir sinni bestu getu að kenna mér muninn á réttu og röngu og ég held að ég lifi nokkuð vel eftir því sem mamma kennir mér.

Mamma er konan sem er alltaf til staðar, þegar eitthvað kemur upp á. Hún samgleðst með mér þegar ég er glöð, syrgir með mér þegar ég er hrygg, stappar í mig stálinu þegar eitthvað bjátar á. Segir mér ekki endilega hvað ég á að gera en leiðbeinir mér á rétta braut ef brautin mín verður of grýtt.

Mamma er konan sem er alltaf til staðar, þegar ég þarf að tala þá hlustar hún, þegar ég þarf að þegja talar hún eða þegir með mér þegar ég vil ekki hlusta bara þegja.

Mamma er konan sem er alltaf til staðar, fyrir fjölskylduna sína sem hún ann kærast. Fyrir vini sína, fyrir ættingja, kunningja. Alltaf til í að fá félagsskap, alltaf til í góðan gleðskap. Ef einhver segir útilega er hún til í að mæta, því hvergi kann hún betur við sig en í hópi góðra vina og ættingja úti í náttúrinni með fellihýsið góða.

Mamma er konan sem ég lít upp til. Konan sem lifir fyrir daginn í dag. Hamingjusöm er hún því hamingjan er ekki fólgin í því að gera það sem þú hefur ánægju af, heldur að hafa ánægju af því sem þú gerir og mamma hefur mikla ánægju af því, hefur gaman að vinnunni sinni og þeim hlutverkum sem hún gegnir og því sem hún er... móðir, eiginkona, amma, tengdamamma, vinur, systir, frænka, sjúkraliði o.s frv. „Að gefa af eigum sínum er lítil gjöf, hin sanna gjöf er að gefa af sjálfum sér“ lýsir mömmu minni best.

Mamma er konan sem er mér kærust, konan sem hefur gefið mér mest. Konan sem gaf mér lífið.  Konan sem ég leita til með allt því hún hefur svörin við öllu. Konan sem ég kynni fólki stolt fyrir og segi hreykin; „Þetta er mamma mín“

Elsku mamma til hamingju með afmælið, þennan áfanga í lífinu. Afmælisdagar eru góðir fyrir þig - því fleiri sem þú átt, því lengur lifirðu og þannig vil ég hafa það! Ég vildi að ég væri með þér þennan dag en við lifum undir sama himni þó svo við sjáum ekki sama sjóndeildarhringinn og ég veit að þú ert bara eitt símtal í burtu.Ég elska þig alltaf og alltaf. Þín dóttir Stella Rán.


Mæðradagurinn er í dag!!

Nú er frábær vika á enda. Var einn dag í skólanum í síðustu viku, ég gerði nú svo sem ekki mikið við frítímann minn, allavega ekkert merkilegt. Notaði hann ekki í að læra eða taka húsið í gegn eins og ég hefði átt að gera!!

Vorum hjá Siggu og Hjalla síðustu helgi í góðu yfirlæti og frábæru veðri. Krakkarnir hlupu um sjálfala, ýmist í brók eða brókarlaus, á meðan við sóluðum okkur og nutum lífsins. Komum svo heim á laugardagskvöldinu því ég var búin að plana dýragarðsferð með Beggu frænku og Evu systir hennar sem var í heimsókn hjá Beggu. Veðrið hefði nú alveg mátt vera aðeins betra á sunnudeginum en dagurinn var góður. Begga átti afmæli og við bökuðum fyrir hana köku og héldum smá afmæliskaffi með henni.

Skellti mér svo á smá djamm á fimmtudagskvöldið, en föstudagurinn var frídagur hér í DK svokallaður Stóri bænadagurinn. Það var mikið drukkið, mikið dansað og dansað meira! Á föstudaginn fórum við svo í afmælismat til Beggu þar sem hún bauð okkur í grillaðan humar og svínalundir, mmmm.... það var bara gott. Laugardagurinn var tekin í afslöppun. Áttum svo yndislegan dag í dag, veðrið var frábært og fengum fullt af góðu fólki í heimsókn. Pálmi kíkti með Júlíu, Svava og Hilmir komu með sín börn og svo kíkti Júlíanna við með sína fjölskyldu en þau eru nýkomin hingað til Odense. Þannig að Hafdís fór þreytt og sæl í rúmið eftir að vera búin að leika sér í allan dag. Helgi gaf mér líka blóm í tilefni mæðradagsinsGrin

Þar til næst...


Sumar og sól í Odense

Nú er sumarið komið, með tilheyrandi sól og PÖDDUM!! Hafdís er hæstánægð með alla maurana sem eru hér, vill endilega fá að hafa þá inni hjá sér sem gæludýr... það er ekki að fara að gerast! Við erum eins með kóngulærnar mæðgurnar og viljum helst ekki fá þær inn, og bara ekki í garðinn heldur. Hvaða tilgangi þjóna kóngulær annað en að veiða flugur? Ég hef aldrei séð geitung í kóngulóavef!!

Fékk niðurstöður úr fyrsta prófinu í dag, og ég náði þvíGrin Mjög glöð með það, var eitthvað efins en nú er það staðfest og ég get farið að einbeita mér að næsta prófi og verkefnum. Fer í eitt próf að lokinni þessari önn og það er 25. júní, en massa verkefnavinna fram að því til að fá próftökurétt.

Frá því við komum frá Íslandi er bara búið að vera frábært veður hér í Odense, ég búin að brenna og flagna og nú tekur tanið viðTounge Hafdís er mjög ánægð þessa dagana á leikskólanum, eftir Íslandsferðina er hún miklu betri í að skilja að dönskuna og íslenskuna en gerir sér ekki endilega grein fyrir hvort tungumálið hún er að tala. Hitinn fer svolítið í hana, orkuna þ.e.a.s. og kemur hún heim af leikskólanum alveg búin á því er sofnuð hér upp úr hálfátta og samt er erfitt að vekja hana á morgnana.

Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur undanfarið og mikið að gera framundan. Erum að fara til Siggu frænku á morgun og ætlum að vera fram á laugardag, Begga frænka og Eva systir hennar ætla að koma á sunnudaginn. Þá verður farið í dýragarðinn og dúllast eitthvað í bænum. Aldrei leiðinlegt í þessu koti!

Þar til næst...


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband