Færsluflokkur: Bloggar
10.1.2009 | 23:44
Takk fyrir árið 2008
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna
Árið 2008 = árið sem ég á seint eftir að toppa! Ætlaði að skrifa einhvern pistil um hvað ég gerði, en nenni því bara ekki. Kannski einhverntíma þegar ég verð í bloggstuði
Hef verið að vinna mikið undanfarið og hreinlega ekki nennt í tölvuna... hvað er það þegar maður nennir ekki í tölvuna?! Hef ekki einu sinni tekið fréttir! En núna er ég komin í vikufrí frá hótelinu og ætla að njóta mín í tætlur, skólinn byrjar svo 2.febrúar og þá þýðir ekkert að slaka á svo ég ætla að nýta mér alla frídaga í janúar til þess. 5-7. febrúar verður svo farið í RUS-TUR sem er skárra orð yfir 2ja daga fyllerí til að þjappa nýnemum saman, er ennþá að gera það upp við mig hvort ég sé að fara
Þar til næst...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.12.2008 | 10:30
Hundapassarar um áramót!
Jólin eru búin að vera frábær hjá okkur. Erum búin að hitta þau systkin Möggu og Atla og þeirra fjölskyldur mikið yfir hátíðarnar. Fórum á jólaball hjá Íslendingafélaginu í Óðinsvé á annan í jólum, þangað kom stórskemmtilegur Kertasníkir í heimsókn og gaf börnunum nammipoka frá Nóa og Síríus enda nýkomin frá Fróni karlinn Buðum svo heim til okkar á 3ja í jólum í fiskiveislu eftir allt kjötátið.
Erum að passa hund, hún heitir Perla og er alveg yndisleg, akkúrat svona hundur eins og ég vil hafa. Róleg og góð en finnst mjög gaman að leika sér. Sigrún Haralds á hana, en hún og fjölskylda eru hjá Þráni og þar má ekki hafa hund svo við græddum á því. Hafdís vill að þetta sé nýji hundurinn hennar og er ekkert á því að þurfa að skila henni!! Búin að fara í góða göngutúra með Perlu og Hafdísi finnst þetta nú ekki leiðinlegt að hafa hund með í för. Pössum núna vel inn í þetta hundahverfi sem við búum í.
Ætlum að borða hér heima hjá okkur í kvöld og fara svo til Möggu og Pálma eftir mat, þau eru með RÚV svo það er hægt að horfa á skaupið þar - þurfum ekki að missa af því þó við séum í DK Erum samt klukkutíma á undan í tímanum svo á miðnætti verður skaupið í loftinu. En þar sem við erum Íslendingar höldum við bara áramótin á íslenskum tíma
Þar til næst...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.12.2008 | 18:27
Gleðileg jól
Gleðileg jól kæru vinir, ættingjar og þeir sem lesa bloggið
Hafið það sem best um jól og áramót, og munið að það sem borðað er um jól inniheldur engar hitaeiningar!
Aðfangadagur var mjög huggulegur hjá okkur hér í Óðinsvé. Byrjuðum daginn á því að fara með Þórey, Atla og börnunum að kveikja á friðarkertum í listigarði sem er nálægt þeim. Fengum okkur svo kaffisopa hjá þeim að því loknu, keyrðum við hjá Möggu og Pálma með pakka fyrir Júlíu og svo var brunað heim að gera matinn klárann. Hafdís lagði sig á meðan við stússuðumst í eldhúsinu, ég að laga súpuna og hamborgarahrygginn og Helgi að klára að ganga frá síðustu pökkunum. Maturinn bragðaðist afar vel, Hafdísi fannst þó algjör vitleysa að vera að borða meira eftir súpuna, hún var búin að borða og var ekki lengur svöng... af hverju að borða þegar maður er ekki svangur Ég get einhverntíma lifað eftir þessu mottói!!! Við Helgi borðuðum auðvitað fyrir öll svöngu börnin í afríku og meira til Hafdís átti ekkert bágt með pakkana undir tréinu og lét þá alveg vera þar til pakkatíminn var komin. Þá opnaði hún bara einn og einn pakka, lét okkur líka fá pakka og horfði á með eftirvæntingu þegar við opnuðum okkar. Fannst þetta bara skemmtilegt og vildi greinilega láta þennan góða tíma endast. Hafdís fékk fullt af bókum sem við vorum svo ánægð með, þar sem að búið er að lesa bækurnar hennar í göt, var þetta bara æði. Við fengum fullt af fallegum gjöfum, takk fyrir okkur allir sem sendu okkur pakka Þar sem við borðuðum aðeins yfir okkur var enginn eftirréttur nema Nóa-konfekt eftir að búið var að opna pakkana.
Í dag hittumst við svo heima hjá Þórey og Atla, við og Magga og Pálmi, og borðuðum saman góðgæti. Þar sem maginn náði að stækka mikið í gær, við mikið át, var tekið á því aftur í dag! Það var mikið borðað þar af góðum mat, kökum og konfekti. Ég fór með hangikjötssalat þar sem Elín gaf okkur hangikjöt, heimareykt af Skúla í Miðbæ, og mamma og pabbi komu með blandað grænmeti þegar þau komu í október. Búin að spara dósina til jóla Magga kom með brauðrétti og Þórey bakaði. Núna liggjum við afvelta og reynum að melta!
Þar til næst...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.12.2008 | 01:05
Þorláksmessa
Jæja, nú er kominn aðfangadagur!!! Það er þó ennþá Þorláksmessa þar sem ég er ekki farin að sofa. Ég var að vinna í morgun þannig að Helgi og Hafdís fóru ein að kaupa jólatré! Hafdís fékk að velja tréið og valdi tré sem við þurftum að saga helminginn af til að koma því fyrir... sagði svo bara "ég valdi litla jólatréið mamma!" Reyndar er tréið lítið innan um stóru 5 metra tréin sem standa í kringum jólatréssöluna Ég fékk þó að fara snemma úr vinnunni og við fórum í bæinn að kaupa jólagjafirnar til okkar. Helgi og Hafdís eru bæði í höfn, fengum öll nýjar flíkur þannig að það fer enginn í jólaköttinn þetta árið, aumingja kötturinn. Hér er ekki mikil stemming í fólki svona daginn fyrir aðfangadag, ekki eins og heima þar sem allar búðir eru opnar til 23, búðirnar hér lokuðu kl. 19 og allt lokað á morgun. Þannig ef ég fatta á morgun að ég á eina jólafjöf eftir, verð ég að gefa eitthvað notað frá mér Þegar bæjarferðinni var lokið fórum við í síldarveislu til Þóreyjar og Atla, þar sem engin skata er í Danmörku fóru þau að borða síld og heita lifrarkæfu á Þorlák. Mjög fínt alveg, Magga og Pálmi voru þar líka svo það var fullt af börnum og svaka stuð. Svo fórum við heim að setja upp jólatréið og skreyta, nú stendur fallega skreytt, bæklað jólatré á miðju stofugólfinu hjá okkur... gott að við eigum ekki mikið af húsgögnum. En þetta er samt sem áður fallegt, okkar jólatré.
Á morgun förum við svo með Þóreyju og Atla og þeirra börnum að kveikja á kertum niðrí bæ. Eitthvað sem skátarnir, sem krakkarnir eru í, eru með. Það verður bara gott fyrir litla spennta jólastelpu að eyða tímanum í eitthvað annað en að bíða eftir jólunum og engin verður jólasundferðin þetta árið. Ég sakna sundlaugarinnar ofur mikið. Svo ætlum við bara að hafa jólin eftir okkar hentisemi. Ég stilli að sjálfsögðu á rás 2 í tölvunni til að hlusta á jólatónlist (sem danirnir eru ekkert að spila alltof mikið af) og jólamessuna kl. 18.
Annars er heimilið okkar orðið frekar jólalegt á að líta, seríurnar þó hafðar í lágmarki. Hamborgarahryggurinn og hangikjötið bíða í eldhúsinu eftir að láta elda sig og allt nammið bíður eftir að láta borða sig. Það verður sko ekkert skilið eftir útundan á þessum bæ.
Þar til næst...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.12.2008 | 13:54
Nammi og jólamatur
Halldóra frænka var að kveðja okkur eftir næturgistingu hér með krakkana. Anders var með julefrukost fyrir vini sína og ekkert gaman fyrir börn að vera í svoleiðis partýi, miklu betra að flýja bara heimilið og við græddum bara á því. Þetta var mjög gaman. Gaman að elda mat fyrir fleiri en 3, að baka og einhver borðar kökurnar á undan mér. Aurelia Rebekka kom reyndar lasin til okkar með 39 stiga hita, svo í nótt byrjuðu bólurnar að spretta á henni. Hún verður s.s. Jólahlaupabóla þetta árið Hafdís liggur svo á sófanum núna með 40 stiga hita... Vonandi verður hún búin að ná sér fyrir jól, en þetta kemur bara ekki á besta tíma þar sem ég er að fara að vinna á morgun og hinn, ætlaði henni bara að þvælast með mér í jólaundirbúningnum. Kannski ég fresti bara jólunum... hahaha!!
Annars skelltum við okkur til Þýskalands í vikunni, þetta er c.a. 1 1/2 tími til Flensborgar, maður keyrir ekki yfir nein landamæri og bara allt í einu er maður komin til Þýskalands, veit það bara af því skiltin eru allt í einu á máli sem maður skilur ekki og hraðinn á hraðbrautinni orðin 120! Versluðum slatta m.a. hamborgarahrygg með beini, sem við höfum bara ekki fundið hér, þannig að jólamaturinn er í höfn. Einnig heilan helling af nammi... við grennumst allavega ekki þessi jólin!
Heimilið er orðið aðeins jólalegra heldur en hjá múslimunum, mamma sendi Siggu með jóladót fyrir okkur Og eitthvað af því er komið upp, eitthvað bíður eftir jólatrénu - sem átti að koma í dag, en það gerist víst ekki Bara á morgun eða hinn, það kemur fyrir jól allavega. Svo voru einhverjar seríur í sendingunni, þær eru reyndar ekki komnar upp en eru á leiðinni í kvöld.
Þar til næst...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.12.2008 | 09:54
Jólatré og jólaskraut!
Nú eru 6 daga í jól og ég búin að skrifa jólakortin og senda pakkana til Íslands ég sendi ekki jafnmörg jólakort í ár og ég hef gert undanfarin ár. Í dag ætlum við svo að skreppa til Siggu og sækja jólaskraut sem mamma sendi hana með til okkar. Jólatréð verður keypt í dag og skreytt um helgina. Á laugardaginn verður svo bakað... Ég er búin að baka eina uppskrift og hún er búin!! Ætli ég velji ekki 2-3 sortir sem við svo hámum í okkur um jólin. Stefnum líka á Þýskaland á morgun, svona til að kaupa gosið, nammið og jólabjórinn Þannig það er nóg að gera hjá okkur fram að jólum, svo vinn ég 22. og 23. Helgi er komin í jólafrí fram að 5. janúar, nema það snjói svaka um jólin þá fer hann að moka fyrir gamla fólkið, ekki líklegt að það gerist. Hafdís er svo líka í fríi frá leikskólanum fram í janúar.
Annars leggjast jólin bara vel í okkur, ætlum bara að vera heima hjá okkur á aðfangadag og hafa það huggulegt. Veit reyndar ekki alveg með hina dagana eða hvernig áramótin verða. Erum reyndar búin að segja já við að passa litla eins árs labradortík yfir áramótin, það verður bara stuð. Helgi er að springa úr tilhlökkun að geta farið út að labba með hund!!! Ég verð að vinna 29. og 30. þannig að hann og Hafdís hafa þá eitthvað fyrir stafni þegar ég er í vinnu.
Erum ekki búin að kaupa gjöf fyrir Hafdísi og það vefst eitthvað svaka fyrir okkur hvað gormurinn á að fá! Það er svo margt sem mig langar að kaupa, og margt sem hana vantar!! Ætlum svo að leyfa henni að velja jólagjöf handa okkur... það verður bara gaman
Þar til næst...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.12.2008 | 17:38
Hver setti nammi í skóinn minn?!?!
Hef bara verið í smá fríi frá tölvunni undanfarið, langaði bara ekki að lesa fréttir eða neitt. Er að komast aftur jörðina núna, eftir erfiða tíma í burtu frá fjölskyldu og vinum. Helgi stendur sig samt eins og alltaf og er búin að vera algjör svampur fyrir mig. Ég ætla að gefa honum eitthvað fallegt eftir þetta allt saman.
Jólin, jólin, jólin koma brátt!!! Ekki verða rosa fúl við mig þó að það komi ekki jólakort inn um lúguna fyrir jól! Ég bara hef undanfarið ekki haft tíma til að skrifa jólakort né verið í skapi til þess hreinlega Ég er þó búin að kaupa jólagjafirnar og þær fara í póst á mánudaginn, það var bara ekki allt tilbúið í dag fyrir lokun pósthússins. Kannski kemst ég í jólakortagírinn á morgun og rumpa þessu af... annars geri ég þetta bara í næstu viku.
Annars er ég bara búin að vera að vinna eins og meiníak undanfarið. Var í fríi í dag, vinn á morgun og svo er það bara vikufrí Vorum að spá í að fara til Þýskalands í næstu viku að kaupa ódýrt nammi og gos fyrir jólin, ætli það verði ekki keyptur einhver jólabjór í leiðinni Svo verður það bara að koma húsinu í stand fyrir jól og kaupa gjöf handa dýrinu. Veit hreinlega ekki hvað hún fær frá okkur foreldrunum.
Jólasveinarnir koma líka til Danmerkur að gefa börnum í skóinn. Hafdísi finnst þetta voða spennandi og er þæg fyrir jóla! Ég sagði frá jólasveinunum 13 og Grýlu mömmu þeirra á leikskólanum, viðbrögðin voru þau að þetta er ekki fallegt að segja litlum krökkum svona fyrir jólin... hahaha... Ég á eftir að segja þeim frá jólakettinum.
Þar til næst...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2008 | 17:11
Átta ára, hjólandi hjálmlausar á þjóveginum!!
Er eiginlega bara eins og sprungin blaðra þessa dagana, vantar pínu fjölskylduna mína heima. En Helgi er klárlega gerður til að vera minn stuðningur því hann stendur sig eins og hetja við að hlusta á tuð og röfl í mér...
Diggi-diggi-diggi... heyrist í þriggja gíra hjólinu mínu þegar ég hjóla á því og þegar ég læt það renna þá heyrist hratt tiggi-tiggi-tiggi... dett eiginlega alltaf í það að hugsa um mig og Steinunni þegar við hjóluðum hýrar á nýju, þriggja gíra Kynast, hjólunum okkar og hlustuðum á gírahljóðið... okkur fannst þetta fallegasta hljóð í heimi Á þessum tryllitækjum hjóluðum við oft inn í Skuggahlíð, hjálmlausar á þjóðveginum og oft án þess að láta vita hvert við værum að fara!! Steinunn í Skuggahlíð hringdi svo út í bæ, eða lét okkur gera það til að láta vita og svo hjóluðum við heim aftur, hjálmlausar á þjóðveginum, og enginn kippti sér upp við þetta!! Í dag hjóla ég með hjálm og finnst ég bara nakin á hjólinu án hans.
Annars er lítið að frétta af okkur hérna, ég bara vinn og vinn þessa dagana þar sem ég vakna rétt fyrir 5 á morgnana er ég farin að sofa á sama tíma og unginn á heimilinu og ekki mikið gert á þessum bæ. Ekki komin mikil jól í okkur, og þetta verður ekkert voða jólalegt hjá okkur þar sem við erum ekki með neitt jólaskraut. Verður líka skrítið að vera ekki heima, heldur bara við ein. Ætlum reyndar að hitta fólk yfir jólin, t.d. Möggu og Pálma, Atla og Þórey og fullt af öðrum þannig við erum nú ekki alveg ein. Hlakka bara pínu til að prófa þetta. Okkur líður alveg bærilega þrátt fyrir aðstæður, finnum góða strauma til okkar frá Íslandi, takk fyrir að hugsa til okkar
Þar til næst...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.11.2008 | 21:11
Vinna - spinna
Nei ég vinn ekki við að spinna, heldur við að þjóna! Einhvernveginn leita svoleiðis vinnur mig uppi þessi árin Ég er s.s. að vinna sem þjónn á Grand Hotel, sem er eitt flottasta hótelið í Odense!! Fín vinna alveg, svolítið erfið þar sem ég kann ekkert inn á allt þar, og tala ekki málið... en það tala samt allir dönsku við mig og ég má að sjálfsögðu ekki tala annað við gestina, nema þá sem eru enskumælandi. Ég óska þess á hverjum degi að inn detti Íslendingur sem ég get þjónað á íslensku, það mundi gleðja mitt litla hjarta. Annars já er vinnan líka svolítið strembin, mikið að gera þar á allt of stuttum tíma, og allt er millimetra mælt og rauðvínsglösin verða að snúa rétt þegar maður dekkar borð... annars!! Ég veit reyndar ekki alveg hvað gerist annars, en auðvitað er rosalega gaman að fara út að borða þar sem allt er svona fínt svo ég skil þetta alveg. Svo er ég einkennisklædd á hverjum degi, svartar buxur, svartir skór, hvít skyrta, svart vesti og silfur grátt bindi. Ég hef undanfarið verið á morgunvöktum og séð um morgunverðarhlaðborðið, mæti klukkan 6 á morgnana! Hjóla af stað kl. 5.20 til að vera ekki sveitt og illa lyktandi þegar ég þjóna nývöknuðu fólki... eins og Setta frænka sagði er ekkert verra en það
Þannig að Helgi er orðin húsfaðir á meðan ég er í vinnu, hann þarf að koma Hafdísi á fætur, klæða hana og koma henni á leikskólann áður en hann fer í sína aktiveringu. Finn það á mér að hann fái vinnu bráðlega
Og fyrir alla þá sem eru að velta fyrir sér jólunum (þetta er jú tíminn sem ekkert annað kemst að í huga fólks) þá ætlum við ekki að koma heim um jólin. En okkur finnst rosa gaman að fá jólakort
Þar til næst...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.11.2008 | 19:31
Vinnan
Höfum verið hér hálfgerðir lasarusar undanfarna daga! Vaknaði á laugardagsmorgun við að Hafdís var að æla allt út var slöpp allan daginn með meðfylgjandi hita... og akkúrat þessa helgi kom besta veður sem hefur verið hér í Odense þetta haustið!! Týpiskt alveg að þurfa að horfa á góða veðrið út um gluggann. En þótt Hafdís hafi verið inni fór ég í bæinn á laugardaginn að finna mér skyrtu fyrir nýju vinnuna, púfff... ég veit hreinlega ekki hvort það er fyrirtæki hér í Odense líkt og Seglagerðin, en ég fann enga skyrtu á mig. Til að eyða einhverjum peningum keypti ég afmælisgjöf handa Önnu Margréti, ég hlakka svo til þegar hún fær hana
Ég byrjaði annars að vinna í gær! Mætti kl. 17 án þess að vita hreinlega hvað ég ætti að gera... en ég var s.s. að þjóna á jólahlaðborði. Þegar ég mæti byrjar hann á að kynna mig og segja að ég komi frá Íslandi og kunni vel að tala dönsku, eða það mætti allavega ekki tala neitt annað við mig... Ég á pottþétt eftir að læra eitthvað í tungumálinu á þessum vinnustað Annars er þetta rosa fínt hótel, First Hotel Grand heitir það. Leist bara vel á starfsfólkið sem vinnur þar. En fyrsta vaktin var svaka erfið... úff... ég er með heljarins harðsperrur og þreytu í öllum kroppnum. Á að mæta aftur í fyrramálið kl. 6. Þarf að hjóla, sem tekur mig c.a. 25 mínútur en það þýðir að ég þarf að fara af stað að heiman kl. 5.30, þannig ég þarf að vakna kl. 5!! Ég hef aldrei verið fyrir það að vakna svona snemma og horfa á eftir öðrum sofandi í rúminu.
Þar til næst...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)