Færsluflokkur: Bloggar

Fall er fararheill!

Það á ekki alveg að okkur að ganga, eða kannski er það bara að fall er fararheillWink Hvert ólánið eltir annað og nú það nýjasta var að það var dúndrað aftan á okkur í dag. Skottið á bílnum í klessu en við í lagi sem betur fer. Ætlum að athuga með hvort hægt sé að seinka miðanum í ferjuna.

Krummi er farinn á nýtt heimili norður á Ólafsfjörð svo það er frekar mikil sorg hér á bæ. Hann er samt komin til frábærrar fjölskyldu að mér sýnist, líst ljómandi vel á þau. Við keyrðum s.s. með Krumma á móti nýju fjölskyldunni í dag og það var á Egilsstöðum þar sem aftanákeyrslan var. En mættum þeim á miðri leið í túristaútskoti þar sem við vorum eins og túristar með myndavélina á lofti að taka myndir af okkur með Krumma. Nýji eigandinn ætlar að halda áfram að vera með hann í leitarhundum svo hann heldur áfram að gera það sem honum finnst gaman og það sem hann er bestur í. Ég verð nú samt að segja að ég sakna hans strax, mig vantar þennan hundshaus sem hangir svo oft á lærunum á mér þegar ég er í tölvunni. Ég kem heim frá Danmörku með nýjan hund sannið til.

Annars missti ég af símtali frá skólanum í Odense í dag og er að deyja úr forvitni af hverju þeir voru að reyna að ná í mig. Verð að spreyta mig á skólabókardönskunni strax í fyrramálið og athuga málið. Annars var okkur líka boðið að sækja um íbúð á kollegi í Odense, á Rasmusrask kolleginu. Þegar ég var að ræða málin við Möggu vinkonu og Pálma kærastann hennar um daginn bentu þau mér á að drífa í að sækja um á kollegin en höfðu ekki góðar sögur af Rasmusrask og létu það í ljós að það væri sísta kollegið í Odense, auðvitað er það eina kollegið sem býður mér að sækja um... Já fall er fararheill. Ég ætla samt að svara þessu og flytja svo bara ef okkur líkar ekki. Þetta er reyndar eitthvað langt í burtu frá skólanum en ég verð þá bara mjó af að hjóla lengraGrin

Það gengur bara ágætlega að pakka, þetta kemur allt með kalda vatninu. Hugsa að mig langi bara að henda öllu og kaupa nýtt, svo meðhöndla ég fallegu gömlu hlutina mína sem einhver gaf mér... úps! Þetta er allt á leiðinni í geymslu í bílskúrinn hjá góðu mömmu og pabbaWhistling Þegar ég verð búin að kaupa nýtt þá kannski, kannski hendi ég þessu gamla.

En ætla að fara hugsa um samræðurnar sem ég á í vændum við danska konu á símanum í danska skólanum sem ég er á leið í!! Þar til næst...


Frú Stella Rán

Nú er ég orðin FRÚ!!!

Frú Stella...gella

Átti yndislega helgi. Finnst ekkert skemmtilegra en að vera með mínum nánustu vinum og ættingjum, tala nú ekki um þegar það er í besta partýi sem ég hef lent í lengi og að fara með þessu fólki á besta ball sem ég hef farið á. Kannski er þetta áhrifin af bleika skýjinu sem hafa ekkert dvínað en þetta var allt frábært frá A-Ö, verður aldrei toppað.

Takk fyrir mig allirKissing 

Skrifa svo um helgina í heild sinni seinna, Þar til næst...

 


Allt að gerast!!!

Það er alveg að koma verslunarmannahelgi, tíminn er svo fljótur að líða... Aðeins 2 dagar í brúðkaup og allt á fullu fyrir það. Kristín Harpa kom fyrir viku og er búin að vera ómissandi í undirbúningnum hún er á fullu í öllu. Fékk hana til að vera veislustjóra og ég er viss um að hún eigi eftir að standa sig með prýði. Þóra ætlar að vera henni innan handar enda á ég það inni hjá henni eftir að hafa stjórnað hennar veisluTounge Einnig er Helga fjölskylda mætt á svæðið, Ósk með krógana sína Markús og Matthildi og Ingibjörg og Gerður eru líka búnar að vera hér vikuna fyrir. Bara gaman að hafa alla þessa "sunnlendinga" hér. Það er nú bara ekki hægt að segja annað en að ég er farin að hlakka til laugardagsins. Hélt reyndar að ég myndi aldrei finna mig knúna til að vera gift, en er farin að venjast tilhugsuninni.

Annars fór ég með Helga á hreindýr á mánudaginn, gengum ásamt Sigurjóni í 12 klukkutíma án þess að sjá tarfinn sem átti að fá kúluna. Hittum þó fram á 80 dýr en það voru allt kýr og kálfar og þar sem Helgi er með tarf þá... þannig að við fórum þreytt heim eftir daginn með ekkert hreindýr. En það verður bara reynt aftur þriðjudaginn eftir versló og þá komum við heim með dýr.

Af flutninum er allt það sama að frétta, förum í Norrænu 14. kl. 16. Ekki komin með íbúð, ekki búin að leigja okkar, ekki kominn inn í skólann í Herlev, en er komin í skólann í Óðinsvé í geislafræðiGrin Svörin úr skólanum í Herlev hljóta að koma á morgun svo verðum við bara að ákveða - höfum 6 daga til þess!!!

 þar til næst...


Flutningar...

Ég er nú byrjuð að pakka niður í kassa fyrir Danmerkurferðina, ekki því sem ég ætla að taka með mér heldur því sem ég ætla að skilja eftir. Við ætlum nefnilega ekki að taka með okkur búslóðina heldur aðeins það nauðsynlegasta og því sem kemst í bílinn þar sem við ætlum að flytja með bílinn með okkur. En það sem ég tel nauðsynlegt eru fötin okkar, handklæði og baðdót, borðbúnað og eldhúsdót, persónulegustu stofumunina og myndir af okkar nánustu. Á undanförnum 10 árum sem við höfum búið saman er svo mikið sem við eigum af dóti... ég hélt að ég hafi hent alveg helling þegar við fluttum austur á sínum tíma en neeeiiii!!! Ég á fullt af glösum sem eru bara til 4 af og ekki hægt að kaupa inní, bolla fyrir tvo (sé ekki fyrir mér að ég og Helgi eigum eftir að drekka rómantískt morgunkaffi úr þeim), pressukönnu sem ég gat ekki á heilli mér setið að eignast og fleira og fleira drasl. Ég vildi að einhver bankaði hjá mér og bæði um dót á tombólu, sá færi sko í burtu með dót og þyrfti ekki að fara í fleiri hús. Gefur maður sófasett á tombólu?

Annars er ekkert að frétta af íbúðarmálum, hvorki erum við komin með íbúð né leigjendur. En ég ætla ekki að láta það trufla hjá mér svefn, ég þarf minn fegurðarblund. Það er líka nóg að hugsa um í bili. Brúðkaup eftir tæpar 2 vikur, og matseðillinn ekki enn tilbúinn en þetta á allt eftir að smella. Er farin að hlakka þó nokkuð til. Ætla að hitta Rósu í vikunni og fara yfir greiðslu og förðun, en hún ætlar að gera mig sæta á daginn sjálfan. Svo ætla ég að fara út fyrir fjallagarðinn að finna skó á Hafdísi og kaupa í lágvöruverslunum í grenndinni í leiðinni.

Í dag var fínasta veður í firðinum fagra, heitt en frekar mikið rok svo mér fannst ekki mikið heillandi að vera úti, fórum þó inn í sveit með hundana Krumma og Kráku, hentum bolta fyrir hundana og Hafdís henti steinum í ána. Undarlegt hvað það er góð skemmtun fyrir krakka. Svo fórum við auðvitað í sund eins og alla aðra daga en það er samt alltaf jafn skemmtilegt. Ég á eftir að sakna sundlaugarinnar mikið úti í DK. Ég sakna meira að segja sundlaugarinnar þegar ég er í RVK!!!

Jæja ætla að halda áfram að pota hlutum ofan í kassa, þar til næst...


Stundum tárast maður bara!!!

Ég á marga vini sem tárast já og grenja hreinlega yfir myndum í sjónvarpinu. Ég aftur á móti tárast yfir verðlaunaafhendingum af ýmsu tagi, þegar fólk er að koma dauðþreytt í mark eftir erfitt maraþonhlaup og átti erfitt með að halda tárunum yfir afreki Benedikts að komast yfir Ermasundið. Frá því ég var lítil stelpa eða frá því ég vissi hvað Ermasundið var ætlaði ég mér alltaf að synda það, hver veit kannski verð ég fyrsta íslenska konan sem fer yfir??? Spái í það. Hann hefur allavega sýnt fram á það að þetta er hægt og búinn að sanna það á íslensku, sem við Íslendingar trúum alltaf best. Benedikt sýnir það líka að maður þarf ekki að vera undir 40 ára til að láta drauma sína rætast þó að þeir krefjist úthalds og styrks.

En til hamingju Benedikt, í dag ert þú minn innblásturWink

Þar til næst...


mbl.is Ermarsundsafreki fagnað í Nauthólsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skræfur á Tenerife!!!

Komin heim eftir 3ja vikna fjarveru. Vikurnar tvær á Tenerife voru bara hreint frábærar. Vorum með Hrafnhildi og Viktori fyrri vikuna og þá seinni við þrjú. Notuðum þennan tíma í tætlur í að láta okkur líða sem best. Fórum út að borða á hverjum degi og létum gengið ekkert skemma fyrir okkur skemmtanir. Takk Hrabba og Viktor fyrir frábært frí Kissing Það var mikið brallað þarna, við fórum t.d. í apagarðinn og fengum að gefa lausum öpum að borða það stendur uppúr af ferðinni hjá dömunni, jú og ströndin sem var svo skemmtilegur sandkassi með sundi!!! Við fórum reyndar líka í vatnsrennibrautargarð, og þar var rennibraut sem er kölluð Boomerangið... hélt að ég myndi aldrei viðurkenna það en ég þorði ekki í hana SHIT-TIT, við Hrabba og Viktor fórum upp alla stigana og fórum aftur niður stigana með skottið á milli lappana ef það hefði verið til staðar.

BOOMERANG

Fórum svo í dýragarðinn Loro Park þegar Hrafnhildur og Viktor voru farin heim, Viktor er nebblega búin að fara þangað með pabba sínum. Nenni annars ekki að rekja ferðasöguna og á eftir að segja frá henni í smáskömmtum e.t.v.

Annars styttist óðum í Verslunarmannahelgina og brúðkaupið!!! Ég fann kjólinn og skóna í Reykjavík áður en við héldum heim á leið. Kristín Harpa og Þóra Elísabet voru með mér í heilan dag og þakka ég þeim ómældan stuðning. Takk-takk-takk. Ekki má gleyma Elínu sem var með mér í heilan dag að leita áður en við fórum út, en án árangurs, Takk Elín. Svo núna tekur við að ákveða veitingarnar og vökvaveitingarnar. Þetta er svaka moj, en skemmtilegt moj.

Erum ekki komin með íbúð í Danmörku en Sigga frænka er á fullu fyrir okkur og við erum reyndar líka komin nr. 46 á biðlistann á kollegi. Við fáum íbúð, það fá allir íbúð þegar mest á reynir er það ekki? Helgi er ekki komin með vinnu og ætlar að fara í að finna sér hana þegar við erum komin á staðinn og komin með íbúð. Ég er ekki komin inn í skólann og fæ ekki svar fyrr en 30. júlí í fyrsta lagi. Svo það eina sem er visst hjá okkur með þessa flutninga er að við eigum að mæta í Norrænu 14. ágúst kl. 14.00.

Ætla ekki að hafa þetta lengra, er dottin ofan í mars og snickers pokann sem ég keypti í fríhöfninni. mmmmm....  

Þar til næst...


Í augnablikinu gæti verið slökkt á farsímanum...

... hann utan þjónustusvæðis eða að ég er á Tenerife. Vinsamlegast skilið eftir skilaboð Cool 

Ég sit reyndar í Kópavoginum og fer á völlinn eftir 3 tíma, finnst ekki taka því að sofa. Sef bara með Hafdísi í flugvélinni, þar sem ég er viss um að hún á eftir að sofa alla leið. Nú ef ekki þá eru í handferðatöskunni 3 bækur, 3 púslur, 1 púslubók, litabók og litir... það verður nóg að gera. Núna er ég í þeim hugsanaganginum að ég sé með allt of mikinn farangur, ætlaði mér að létta aðeins á töskunni, það fór allt ofan í hana aftur. Það eru aðallega föt á mig og Hafdísi og þar sem Helgi treystir alltaf á mig að pakka niður fyrir sig setti ég smá fyrir hann og svo eru það bara handklæði og skór... ekki merkilegur farangur en ég get ekki skilið neitt eftir svo allt fer með mér og ég nota kannski ekki helminginn.

Hrafnhildur og Viktor bíða spennt eftir að fá okkur út og Hrafnhildur ætlar að vera með móttökuboð þegar við komum. Ískaldur bjór handa ritara og svali fyrir beibíið, Helgi fær bara kaffi.

Af brúðkaupsplönum er það að frétta að ég er ekki búin að finna mér kjól, sá annars einn svaka lekkeran dökkbrúnan sem kemur sterklega til greina en ætla þó að bíða með að kaupa þangað til ég kem heim frá Tene. Og ég setti boðskort í hús, bauð reyndar bara nánustu vinum og ættingjum í Neskaupstað og þeir þurfa að láta vita ef þeir koma ekki. Þeir sem finnst að þeir hefðu átt að fá boðskort og fengu ekkert hafa bara samband og láta vita að þeir ætli að koma. Ég er ekki fullkomin og kannski er ég óvart að gleyma ÞÉR!!!

 Ætla að taka mig betur til og kannski slétta á mér permanett hárið svo ég verði fín og sæt þegar í Leifsstöð er komið, þar til næst... (sem kannski verður á Tene)

 

  


17. júní

Því lýðveldið Ísland á afmæli í dag - Hæ hó jibbíjei og jibbíjeijei, það er kominn 17. júní... Þetta er það eina sem ég kann úr þessu lagi en ég kenndi Hafdísi að syngja það hátt og snjallt (sá sem syngur hæst syngur bestGrin)

Vá ég elska 17. júní, ég elska 17. júní næstum jafn mikið og mitt eigið afmæli. Kannski af því að ég er Íslendingur og er svakalega stolt af því eða þá að það eru flest allir spariklæddir niðrí bæ, eyða peningunum sínum í vitleysu í góðri trú um að vera að styrkja eitthvað og gefa krökkum sínum hvað sem þau vilja. Ég er þar engin undantekning, var farin að hlakka til strax 16. júní að fara með Hafdísi á hátíðarhöldin og kaupa gasblöðru handa henni með einhverri fígúru og stóran sleikjó, helst snuddusleikjó. Reynar fannst mér þessi hátíðarhöld í Fjarðabyggð ekkert hreint æðisleg en það var gaman að hafa farið. Það var allt á Reyðarfirði þar sem það er svo miðsvæðis, fyrir þetta stóra sameinaða sveitarfélag. Karíus og Baktus mættu á svæðið og það var það sem stóð uppúr hjá minni dömu, gasblaðran og svo hoppukastali sem hún reyndar var of lítil til að fara í, en þá er gott að eiga stóran frænda sem passar litla frænku. Andri Snær stóð sig eins og hetja við að hljálpa henni upp og niður aftur.

Finnst reyndar skemmtilegra að vera í Reykjavík þegar við höldum upp á þjóðhátíðardaginn. Þar er svo mikið um að vera. Man mjög vel eftir þessum degi þegar ég var 9 ára. Pabbi fór með okkur systur niður í bæ og mamma var að vinna, hann átti ekki mikinn pening en var búinn að spara til að geta keypt handa okkur gasblöðrur, ég fékk páfagauk ég man þó ekki hvað Kristín fékk, svo fengum við risasleikjósnuð. Pabbi var besti pabbinn í öllum heiminum. Svo þvældist hann með okkur útum allan miðbæinn. Þegar við horfðum á sviðið á Ingólfstorgi hélt hann á okkur á háhest til skiptis oh... það var svo gaman að vera á háhest og ég fékk hann til að halda á mér líka að bílnum, á háhest. Ég hef aldrei verið nett, aldrei, ekki einu sinni þegar ég var 9 ára. Þegar við komum heim hnerraði pabbi svo kröftulega að þreytt bak hans hrundi saman og hann lá í 2 vikur. Ég kenndi mér um þetta algjörlega og geri enn. En við hlæjum samt að þessu og minnumst þess að hann hefði betur haldið á Kristínu þar sem hún var léttari en ég, en ég var 3 árum yngri og fékk að ráða!!! ´

13 dagar í Tenerife, og það er verið að byðja Íslendinga að spara!!! Þar til næst...


Annar dauður, einn eftir!!

Jáhá, þá er bangsi bara dauður. Búið að senda eftir sérfræðingum sem áttu að þekkja hans mál, eða þannig,  með risabúr til að setja hann í, Björgúlfur tilbúinn að borga fyrir flutning á birninum og lalalalala... Þegar fyrri björninn var skotinn varð allt brjálað, athugasemdir um að það hefði átt að bjarga greyjinu og jaríjarí. Umræðan var enn í gangi þegar umræddur björn sést á landi Hrauns á Skaga og strax farið í björgunaraðgerðir til að bæta skaðann fyrir hinn. Fólk frá DK fengið með deyfilyf til að svæfa hann og svo átti að setja hann í búr. En svo hvekktist hann eitthvað þegar átti að fara að bjarga lífi hans og tekur á rás að sjó, þá var hann skotinn. Hann var sem sagt skotinn á færi eins og hinn björninn en allir samt alveg svakalega sáttir eftir að vera búnir að eyða fullt af peningum í að reyna að bjarga honum. Hann er dauður alveg eins og hinn björninn, dó alveg jafn hræddur og hinn björninn, var skotinn alveg eins og hinn nema þessi var kannski saddari eftir að vera búinn að eyðileggja æðavarpið. Hver ætlar að borga bændunum þann skaða? Borgar Björgúlfur eitthvað þar sem ekki tókst að bjarga bangsa?

Ætli ég geti fengið einhvern eins og Björgúlf til að borga mína flutninga úr landi?? Þar til næst...


mbl.is Ísbjörninn að Hrauni dauður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísbjörn á Íslandi!!!

Nú er allt í háalofti yfir ísbjörnum sem gagna hér á land. Hér í eina tíð þótti það ekki tiltökumál að þessi stóru bjarndýr sæust hér, þeir slæddust þá eins og nú hingað með ísjökum og var meira að segja meira um það. Þá tóku bændur á móti þeim með góða haglabyssu og skutu þá á færi til að vera fyrri til annars færi bangsi í féð, hestana og fengi sér svo kannski væna fjölskyldu í eftirrétt. Þá var ekki mikið hugsað um að ná þeim lifandi og senda þá aftur þaðan sem þeir komu og engin dýraverndunarsamtök sem ætluðust til þess heldur. (ekki taka því þannig að mér þyki ekki vænt um dýr)

En í dag er þetta auðvitað annað mál. Birnirnir eru í útrýmingarhættu og eru friðaðir nema þeir stofni mannfólki í hættu. Það er hægt að fanga björninn og panta fyrir hann far með skipi eða flugvél undir bangsa. Hingað eru á leiðinni dýragarðsverðir frá Danmörku (björninn hlýtur að skilja dönsku þar sem hann er frá Grænlandi eða hvað!!), með búr til að fanga dýrið. Og hvað svo? Annað hvort að koma honum til Grænlands aftur en Grænlendingar vilja víst ekki sjá greyið eða koma honum í dýragarð. En hvernig er það fyrir svona stórt dýr sem hefur alla tíð verið frjáls að láta loka sig inni í litlu búri? Kannski er það betra fyrir dýrið að fá að fara aftur á heimaslóðir á ný.

En hver ber svo kostnaðinn af flutningunum? Hver borgar fyrir dýragarðsmennina sem eru á leiðinni hingað? Auðvitað er alltaf erfitt þegar svona falleg dýr eru drepin en þau eru stórhættuleg, bangsi er orðinn svangur og mundi ráðast á hvað sem er. Svo er ódýrara fyrir íslenska ríkið að skjóta hann á færi og nota peningana í eitthvað skynsamlegt. En þetta er bara mín skoðun og þarf ekki að endurspegla skoðanir annarra.

Þar til næst...


mbl.is Reynt að ná birninum lifandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband